Virkjanir og stóriðja eru ekki rétta lausnin í byggðamálum

Størrelse: px
Begynne med side:

Download "Virkjanir og stóriðja eru ekki rétta lausnin í byggðamálum"

Transkript

1 Háskóli Íslands Raunvísindadeild Jarð-og landfræðiskor Virkjanir og stóriðja eru ekki rétta lausnin í byggðamálum Eva Dögg Kristjánsdóttir Jórunn Íris Sindradóttir Tinna Haraldsdóttir Námskeið: Byggðaþróun og atvinnulíf Reykjavík Umsjón: Ásgeir Jónsson Febrúar 2005

2 EFNISYFIRLIT EFNISYFIRLIT... II INNGANGUR STÓRIÐJA OG VIRKJANIR ERU EKKI RÉTTA LAUSNIN Í BYGGÐAMÁLUM Umhverfi Samfélag Efnahagur BETRI LAUSNIR Í BYGGÐAMÁLUM...13 LOKAORÐ...15 HEIMILDASKRÁ...16 II

3 INNGANGUR Byggðastefna er skipuleg viðleitni stjórnvalda til að hafa áhrif á þróun byggðar á þeim svæðum er höllum fæti standa. Með byggðastefnu er átt við margvíslegar opinberar aðgerðir sem ætlað er að styðja við þau svæði þar sem búsetuskilyrði fólks og starfsskilyrði atvinnuvega eru lakari en þar sem byggð dafnar, atvinnulíf gengur vel og fólk er flest. Góð byggðastefna þarf að bæta hag íbúa í jaðarbyggðum án þess að skerða hag landsins í heild. Ef stóriðja og virkjanir eiga að vera rétta lausnin í byggðamálum þá þurfa stóriðja og virkjanir að hafa þau áhrif að það verði eftirsóknarverðara en áður að búa í byggðalagi. Til að stóriðja og virkjanir geti verið rétta lausnin í byggðamálum þarf að vera hægt að setja á fót stóriðju og framleiða raforku á sjálfbæran hátt. Í þessari ritgerð verða færð rök fyrir því að leið virkjana og stóriðju séu ekki rétta lausnin í byggðamálum. Fjallað verður um umhverfis-, samfélags- og efnahagsleg rök á móti stóriðju og loks verður bent á aðrar leiðir sem mætti fara í byggðastefnu stjórnvalda. 1

4 STÓRIÐJA OG VIRKJANIR ERU EKKI RÉTTA LAUSNIN Í BYGGÐAMÁLUM 1.1 Umhverfi Oft hefur því verið fleygt fram að á Íslandi sé að finna óspillta náttúru og margir myndu óhræddir fullyrða að óspillt víðerni séu fágæti nú til dags. Samkvæmt könnun sem var gerð sumarið 2004 af Ferðamálaráði Íslands kemur fram að tæp 70% þátttakenda fannst hrein og ómenguð náttúra vera þau atriði sem lýstu Íslandi best. Þegar spurt var út í hvað væri jákvæðast við Ísland töldu tæp 60% þátttakenda það vera náttúruna. Má segja að þessi ímynd af náttúru Íslands sé ómetanleg (e. priceless) og því sé verndargildið hátt, einkum vegna fágætis. Aukin ásókn innlendra og erlendra ferðamanna inn á hálendið er vísbending um að þar sé um verðmæta auðlind að ræða. Könnun sem var gerð meðal ferðamanna á hálendinu norðan Vatnajökuls leiddi í ljós að ferðamenn vilja halda svæðinu óbreyttu, fyrir utan að bæta mætti merkingar á vegum og gönguleiðum. Ekki vildu ferðmenn sjá veitingasölu og fjölgun gististaða þar sem megin ástæða fyrir komu þeirra á svæðið var að upplifa ósnerta náttúruna, víðáttuna og þann frið sem ríkir á öræfunum (Anna Dóra Sæþórsdóttir 1998). Erlendum ferðamönnum hefur verið að fjölga hratt hér á landi síðustu árin. Árið 1999 voru þeir talsins en fimm árum seinna hafði þeim fjölgað um rúmlega 33% en þá var fjöldinn orðinn manns. Gjaldeyristekjur af ferðamönnum hafa aukist í hlutfalli við aukinn fjölda þeirra. Á síðustu árum hafa gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum aukist úr rúmlega 30 milljörðum árið 2000 í rúmlega 37 milljarða árið 2003 (Hagstofa Íslands 2004a). Gert er ráð fyrir að ferðamönnum muni halda áfram að fjölga á komandi árum ásamt því að gjaldeyristekjurnar af þeim munu aukast. Hvers vegna er það þá í lagi að ósnortinni náttúru sé fórnað fyrir uppistöðulón þegar áherslan í markaðssetningu gengur út á hreinleika lands og landbúnaðarafurða? Með virkjun fallvatna skerðum við möguleika okkar og komandi kynslóða á að nýta á skynsamlegan hátt það sem forfeður okkar arfleiddu okkur að og möguleikar ferðaþjónustu skerðast. Með ferðaþjónustu skapast aukin fjölbreytni fyrir þjóðina sjálfa, bæði hvað varðar afþreyingu og atvinnulíf, þó sér í lagi á landsbyggðinni. Rannsóknir benda til þess að þjóðhagslegur ávinningur ferðaþjónustu sé meiri úti á landi þar sem fólksfæðin hefur þau áhrif að nýting framleiðsluþátta sé verri og fjölbreytni minni. Þeir gestir sem koma utan háanna tíma skapa meiri ábata vegna þeirrar umframgetu sem er þá til staðar. Því er mikilvægt fyrir stjórnvöld að byggja upp og stilla saman bættri arðsemi, byggðastefnu og 2

5 náttúruvernd á þann hátt að ferðamannastraumurinn dreifist jafnt um landið og yfir árið (Ásgeir Jónsson 2004). Eins og áður sagði þá nær ímynd hreinleikans ekki eingöngu yfir landið sem slíkt heldur líka yfir landbúnaðarafurðir þess. Sem dæmi má nefna að útflutningur á lambakjöti hófst til Bandaríkjanna árið 1998 og hefur farið stigvaxandi. Þessi aukna eftirspurn kemur til vegna kröfu neytenda um náttúrulegar og lífrænar matvörur, en íslenskt lambakjöt þykir tilheyra þeim hópi. Sala lífrænnar fæðu á Bandaríkjamarkaði nemur um 8,5 milljörðum dollara á ári og því er eftir miklu að sækjast (Bændablaðið 2003). Í greinagerð sem bóndi nokkur sendi frá sér þegar athugasemdir bárust vegna stækkunar Norðuráls á Grundartanga komu fram áhyggjur af því að aukin umsvif stóriðju á Grundartanga myndu hafa neikvæð áhrif á landbúnað í nágrenninu. Áhyggjurnar fólust í því að íslenskt lambakjöt væri búið að skapa sér ákveðna stöðu hvað varðar hreinleika. Þegar vísað er til hreinleika matvæla er átt við að mengandi efni séu í lágmarki. Bændur hafa því áhyggjur að aukin mengun frá stærri iðnaðarsvæðum geti haft áhrif á landbúnaðarafurðir þeirra. Sérstaða íslenskra landbúnaðarafurða kemur til vegna vistvænnar framleiðslu og með aukinni mengun veikist samkeppnisstaðan (Morgunblaðið 2000). Mikið er rætt um hvernig og hversu mikið stóriðja mengar. Mörg iðnfyrirtæki státa sig af öflugum vörnum sem lágmarka allan útblástur. Engu að síður er útblástur í einhverjum mæli fylgifiskur stóriðju. Í athugun sem Flosi Hrafn Sigurðsson o.fl. (2003) gerðu á veðurfari í Reyðarfirði kemur fram að landslag staðarins hafi mikil áhrif á veðurfar. Bærinn og álverið liggja innarlega í firðinum, vindar blása oft inn fjörðinn og þá er hætt við að mengunarefnin safnist upp yfir bænum.. Hringrás haf- og landgolu sér stað innanfjarðar á Reyðarfirði og því getur sama loftið því borist tvisvar eða jafnvel þrisvar sinnum yfir álverið og byggð í kring á sama degi. Vindafar á Reyðafirði er því ekki hagstætt iðnaði sem hefur í för með sér útblástur mengunarefna. Margar þær jaðarbyggðir á Íslandi eru í svipuðu landslagi og byggðin við Reyðarfjörð og því má gera ráð fyrir að vindafar í þeim byggðum sé jafn óheppilegt stóriðju og vindafarið á Reyðarfirði. Misjafnar skoðanir eru um hvort stóriðja komi til með að nýta endurnýjanlega hreina orku. Aurinn sem berst í uppistöðulón mun ekki aðeins koma í veg fyrir endurnýjanlega orku heldur mun einnig eiga sér stað gífurleg eyðilegging á landi og öðrum auðlindum auk mengunar í formi uppblásturs og ryks. Svona nýting lands svipar til námugröfts að því leyti að einungis er hægt að nota hverja námu í 3

6 takmarkaðan tíma en síðar verður hún ónothæf. Þegar lónin fyllast af aur verða íbúar landsins að leita sér að orku á öðrum stöðum og landið stendur eftir eins og hver önnur yfirgefin kolanáma og ónothæf til endurnýjanlegrar nýtingar eins og t.d. beitar eða náttúruskoðunar (Náttúruverndarsamtök Íslands 2002). Kyoto-bókunin sem Íslendingar samþykktu felur í sér minnkun á losun gróðurhúsaloftegunda en að nota stóriðju sem byggðastefnu eykur losunina. Ísland er búið að skuldbinda sig til að draga úr útblæstri á komandi árum og getur því ekki reitt sig á stóriðju sem byggðalausn til lengri tíma. En í Kyoto-bókuninni er að finna íslenskt ákvæði sem fjallar um áhrif einstakra verkefna á losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) á fyrsta skuldbindingartíma. Með einstökum verkefnum er átt við iðnframleiðslu á tilteknum stað sem tekur til starfa eftir 1990 eða stækkun iðnframleiðslu á tilteknum stað. Ýmis skilyrði eru sett fram varðandi nýtingu þessarar undanþágu. Meðal annars skal endurnýjanleg orka notuð í viðkomandi framleiðslu sem leiðir til þess að losun gróðurhúsalofttegunda sé minni per hverja framleidda einingu. Þá kemur stóra spurningin, hvað felst í endurnýjanlegum orkugjöfum? Svo virðist sem ekki sé nein ein viðurkennd skilgreining á þessu hugtaki. Oftast nær vísar endurnýjanlegt til þess að notkun þess skerði ekki gæði eða takmarki notkunarmöguleika sömu gæða í framtíðinni. Bygging vatnsaflsvirkjana með manngerðum uppistöðulónum er einungis tímabundinn rekstur því með tímanum fyllir aurburður frá jöklum lónin og aðliggjandi virkjun verður óstarfhæf. Því má segja að orkuframleiðsla vatnsaflsvirkjana sé ekki endurnýjanleg (Tryggvi Felixsson 2003) Til að halda orkufrekri stóriðju gangandi er raforkuframleiðsla vatnsaflsvirkjunar einfaldasta lausnin. Það þýðir að stór hluti af, oftast nær, ósnertri náttúru lands hverfur undir vatn og umfangsmikil umhverfisspjöll eiga sér stað. Í Rammaáætlun 1 sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið gaf út árið 2003 segir að mikill áhugi sé á að nýta orkulindir til frekari stóriðju og svo þegar fram líða stundir til framleiðslu á eldsneyti. Talað er um að æskilegt sé að nýta slíkar orkulindir svo lengi sem það sé gert á sjálfbæran og vistvænan hátt. Vatnsaflsvirkjanir eru ekki endurnýjanleg auðlind og því samræmist það ekki sjálfbærri þróun að virkjanir og stóriðja séu rauði þráðurinn í byggðastefnu stjórnvalda. 4

7 1.2 Samfélag Því er oft haldið fram að menntastefna sé fjárfesting til framtíðar og sé í raun forsenda efnahagslegra framfara og félagslegrar velferðar íbúa landsins. Þessa fullyrðingu má sjá endurspeglast í haustskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu Þar eru settar fram tillögur um byggðastefnu, m.a. þá að megináhersla byggðastefnu ætti að vera á menntun þar sem að með þess háttar stefnumörkun mætti auka tekjumöguleika fólks. Þessa sömu fullyrðingu má sjá hjá stjórnvöldum en iðnaðar- og viðskiptaráðherra telur að meginstoðir traustrar búsetu á landsbyggðinni séu menntun, almennt hátt þekkingarstig og nýsköpun í atvinnulífi (Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti 2004). Ljóst er að leið stóriðju og virkjana sem byggðastefnu fetar þessa slóð ekki nema að litlu leyti þar sem störf við virkjanaframkvæmdir og byggingu orkuvera eru flest þess eðlis að menntunarstig starfsmanna þarf ekki að vera hátt. Auk þess má benda á að lítill hluti starfa í stóriðju krefjast langskólamenntunar. Sé álver Alcan í Straumsvík tekið sem dæmi þá eru tæplega 14% starfsmanna þar með háskólamenntun, um 24% hafa einhvers konar iðnmenntun og 66% starfsmannanna eru hvorki með iðn- né háskólamenntun (Alcan á Íslandi 2005). Þá má einnig nefna að fjölbreytt atvinnulíf er talið vera lykilatriði í byggðaþróun (Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti 2004). Vissulega eykur stóriðja í Straumsvík og á Grundartanga fjölbreytni í atvinnulífinu á suðvesturhorninu. Hins vegar er atvinnulíf þar mjög fjölbreytt fyrir og störf við stóriðju einfaldlega viðbót sem fjölgar atvinnutækifærum. Færa má rök fyrir því að virkjanir og stóriðja séu hins vegar ekki rétta lausnin í byggðamálum fyrir lítil byggðarlög úti á landi, þar sem algengt er að atvinnulíf byggist að miklu leyti upp á frumvinnslu- og úrvinnslugreinum. Ef Austurland er tekið sem dæmi má nefna að atvinnulíf þar er fremur einhæft og byggist að langstærstum hluta á landbúnaði og sjávarútvegi. Árið 1997 voru ársverk í þessum greinum um 40% af heildarfjölda ársverka á Austurlandi (Grétar Þór Eyþórsson o.fl. 2001). Nýjasta stóriðjuframkvæmdin hér á landi, þ.e. álver í Reyðarfirði, telst sem úrvinnslugrein og verður þannig ekki til þess að auka fjölbreytni í atvinnulífi á Austurlandi að neinu ráði nema ef væri í afleiddum störfum, en umdeilt er hversu mörg þau munu verða. Þá eru til dæmi erlendis frá sem styðja að virkjanir og stóriðja eru ekki rétta lausnin í byggðamálum, t.d. stóriðja í Rjukan í Noregi. Þar átti stóriðja að skapa ný störf í byggðalagi sem stóð höllum fótum. Þegar uppgangurinn í kringum stóriðjuna 5

8 var sem mestur, eða árið 1920, voru íbúar Rjukan um Í dag eru íbúar svæðisins um helmingi færri eða um 6000 talsins. Gerðar hafa verið nokkrar rannsóknir til að varpa ljósi á ástæður brottflutninga á svæðinu og benda þær flestar til þess að aðalástæðan hafi verið sú að atvinnutækifæri á svæðinu hafi verið fábreytt og fólk hafi hreinlega menntað sig að heiman (Hansen 2004). Einn þátttakandi í rannsókninni orðaði þetta svo: Jeg gjorde et valg da jeg var ferdig cand.mag. Da må du bestemme deg om du skal kjøre den karrieregreia eller ikke. Hvis du gjør det, da kommer du ikke tilbake. Da utdanner du deg ut av dalen. (Kolbjørnsen 2002). Ekki eru taldar líkur á að dragi úr þessum fólksflótta frá Rjukan og því er farið að vanta fólk í yngri aldursflokka (Hansen 2004). Þetta getur líka orðið til þess að þekkingarþurrð verði á svæðinu og nýsköpun takmörkuð. Þessa sömu þróun má einnig sjá hér á landi og hefur einhæft atvinnulíf einmitt verið nefnt sem einn af áhrifaþáttum neikvæðrar íbúaþróunar í dreifbýli (Sigurður Sigurðarson 2003). Á stórum hluta landsbyggðarinnar eru frumvinnslu- og úrvinnslugreinar enn stærstar og einhæft atvinnulíf þar gerir það að verkum að margir eiga erfitt með að finna fótfestu og flytjast því á brott. Búferlaflutningar eru tíðastir hér á landi meðal ungs fólks og þá sérstaklega ungra kvenna (Hagstofa Íslands 2005a, Sigurður Sigurðarson 2003, Þjóðhagsstofnun 2000). Skýringar á þessu eru m.a. þær að með aukinni kröfu um menntun og sérhæfingu í nútímasamfélagi gerir fólk um leið kröfu til fjölbreyttra atvinnutækifæra og góðra tekjumöguleika. Þar sem atvinnulíf er einhæft nýtist hátt menntunarstig ekki eins vel og á fjölbreyttari atvinnusvæðum og á þeim svæðum þar sem hlutfall vinnuafls í frumvinnslu- og úrvinnslugreinum er hátt er hlutfall láglaunastarfa einnig hátt (Ragnar Ingimundarson 2003). Þessar aðstæður gera það að verkum að ekki er eftirsóknarvert fyrir ungt fólk með hátt menntunarstig að setjast þar að. Nauðsynlegt er að bregðast við þessu því það er jú unga fólkið sem er vaxtarbroddur samfélagsins. Ekki er víst að byggðastefna sem byggir á stóriðju nái að snúa þessari þróun við. Einnig má velta því upp hvort að áhrif stóriðjustefnu nái jafnt til karla sem kvenna. Sé litið á atvinnuskiptingu kynjanna fyrir árið 2003 má sjá að hlutfall kvenna í frumvinnslu er um 3%, í iðnaði um 12% og 85% í þjónustugreinum. Atvinnuskipting karla er hins vegar 10% í frumvinnslu, 32% í iðnaði og 58% í þjónustugreinum. Þannig má álykta sem svo að störf í frumvinnslugreinum séu ekki eins eftirsóknarverð fyrir konur og störf í þeim atvinnugreinum sem eru vaxandi í dag, eins og 6

9 þjónustugreinum og starfsemi hins opinbera (Hagstofa Íslands 2005b). Konur sækja einfaldlega mun minna en karlar í greinar sem byggja á frumvinnslu eða úrvinnslu. Samkvæmt rannsókn Gunnhildar Guðbrandsdóttur (2004) á viðhorfum ungs fólks á Austurlandi til starfa í álveri á þetta einnig við um stóriðjuframkvæmd í Reyðarfirði. Niðurstöður könnunar hennar sýna ótvírætt að ungar konur á Austurlandi hafa mjög takmarkaðan áhuga á að starfa í álveri en aðeins 2% þeirra sögðust hafa nokkurn áhuga á því en engin mikinn áhuga. Áberandi mikill meirihluti stelpnanna vildi vinna við störf sem á engan hátt tengjast byggingu álvers eða störfum í því, á meðan að ungir karlar á Austurlandi virðast hins vegar hafa meiri áhuga fyrir þess háttar störfum. Þessi kynjaskiptu viðhorf eru staðreynd í samfélaginu í dag og má sjá bersýnilega ef skoðað er hlutfall kynjanna í störfum hjá þeim álverum sem eru rekin á landinu í dag. Annars vegar hjá Alcan í Straumsvík þar sem 15% starfsmanna eru konur en 85% karlar og hins vegar hjá Norðuráli á Grundartanga þar sem 18% starfsmanna eru konur og 82% karlar. Ekki aðeins eru karlar í miklum meirihluta starfa í álverum hér á landi heldur eru einnig mun fleiri þeirra menntaðir í þeim greinum sem tengjast störfum í áliðnaði, þ.e. ýmiss konar iðngreinum og verk- og tæknigreinum (Gunnhildur Guðbrandsdóttir 2004). Meirihluti kvenna stundar hins vegar nám í greinum eins og heilbrigðis-, uppeldis- og kennslugreinum og hlutfall þeirra í tæknigreinum og verkfræði er lágt (Hagstofa Íslands 2004b). Gunnhildur Guðbrandsdóttir (2004) veltir áhugaverðri spurningu upp sem vert er að hafa í huga við mótun byggðastefnu - hvort nægjanlegt tillit sé tekið til áhugasviðs, aðstæðna og menntunar íslenskra kvenna með stóriðjustefnu og byggingu álvera. Af því sem fram kemur hér að ofan má leiða rök fyrir því að með stóriðjustefnu í byggðamálum lítilla byggðalaga sé auðveldara fyrir karlmenn að fá vinnu við hæfi fremur en konur. Því er hugsanlegt að konur haldi áfram að flytjast frá landsbyggðinni fremur en karlar og að það leiði til kynjaskekkju sem hafa mun áhrif á þróun byggðalaganna. 1.3 Efnahagur Virkjanir og stóriðja eru ekki rétta lausnin í byggðamálum á Íslandi því framkvæmdir þess eðlis fela í sér mikla áhættu og gætu leitt til mikils taps fyrir íslensku þjóðina. Hér á landi er venjan sú að Landsvirkjun eigi og byggi virkjanir sem framleiða rafmagn til stóriðju en erlendir fjárfestar byggi upp, eigi og reki stóriðjuna sjálfa, þetta á t.d. við um Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál. Erlendir fjárfestar koma ekki til Íslands 7

10 og fjárfesta nema vera nokkuð vissir um að fjárfestingin beri hagnað, því er nokkuð öruggt að stóriðjan sjálf muni skila árangri ef erlendir aðilar sækjast eftir því að fjármagna hana (Ásgeir Jónsson 2002). Til að stóriðja verði að veruleika þarf að virkja, en virkjanir geta ekki talist hagkvæmur fjárfestingarkostur. Engu að síður hefur íslenska þjóðin verið skuldsett til fjármagna nýjustu virkjunina til stóriðju á Íslandi, en íslenska ríkið á 50% í Landsvirkjun, Reykjavíkurborg á 45% og Akureyri 5% (Landsvirkjun 2005a). Þorsteinn Siglaugsson (2002) hagfræðingur telur að litlar líkur séu á að Kárahnjúkavirkjun skili þeirri arðsemi sem Landsvirkjun gerði kröfur um í áætlunum sínum. Þorsteinn segir jafnframt að margt bendi til þess að virkjunin muni ekki skila þeirri lágmarksarðsemi sem eigendur hlutafjár gera kröfu um, jafnvel þó þeir fái lægri vexti vegna ríkistryggðra lána. Landsvirkjun lét Sumitomo-Mitsui bankann meta fyrir sig arðsemi af Kárahnjúkavirkjun, sá banki komst að þeirri niðurstöðu að Landsvirkjun fái þann arð af verkinu sem hún stefnir að (Sigurður Jóhannesson 2001). Það er því ljóst að þeir sem leggja mat á arðsemi virkjana gefa sér ólíkar forsendur og komast að mismunandi niðurstöðum. Sigurður Jóhannesson (2001) hagfræðingur bendir á einfalda leið til skera úr um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar: að þeir sem hafi trú á að verkefnið sé arðbært setji fé í það en aðrir ekki, en OECD mælti einnig með þessari leið í skýrslu sinni frá apríl 2003 (Sigurður Jóhannesson 2005). Fyrirtæki á almennum markaði eru fjármögnuð á þennan hátt og þau verkefni sem þykja líkleg til arðsemi er auðvelt að fjármagna. Fjárfestar sýndu Kárahnjúkavirkjun það lítinn áhuga að ríkisábyrgð þurfti til að koma verkefninu í framkvæmd, af þessu má draga þá ályktun að markaðurinn meti Kárahnjúkavirkjun sem slæma fjárfestingu. Hér að ofan var sýnt fram á að virkjanir séu slæm fjárfesting, það var gert án þess að reikna fórnarkostnað inn í dæmið. Í arðsemismati vegna Kárahnjúkavirkjunar er ekki reiknað með fórnarkostnaði lands sem fer undir vatn, né reiknað með kostnaði sem hlýst af ríkisábyrgð lána (Ásgeir Jónsson 2002). Alþjóðabankinn mælir með því að vandaðar spurningarkannanir séu notaðar til að meta neyslufórn tengda náttúruauðlindum, slíkar aðferðir kallast skilyrt verðmætamat og verða sífellt algengari í Evrópu og Bandaríkjunum. Landsvirkjun og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið kusu að sleppa því að meta fórnarkostnaðinn vegna Kárahnjúkavirkjunar þó svo að Alþjóðabankinn mæli með slíkum aðferðum. Þá má spyrja sig af hverju þeir ákváðu að sleppa slíku mati, óttuðust þeir að kostnaðurinn 8

11 væri of mikill til að réttlæta fórnina? (Þórólfur Matthíasson 2002). Landsvirkjun hefur haldið því fram að efnahagslegur ávinningur af Kárahnjúkavirkjun og áhrif á atvinnuþróun séu mun meira virðis en þau náttúruspjöll sem virkjunin og framkvæmdir tengdar henni muni valda. Landsvirkjun og Reyðarál hafa hinsvegar ekki sýnt fram á að þetta sé raunin. Landsvirkjun hefur ekki sýnt fram á að Kárahnjúkavirkjun stæði undir því að greiða auðlindagjald fyrir notkun sína á náttúruauðlindum og Reyðarál hefur ekki sýnt fram á það að álverið stæði undir því að kaupa losunarkvóta vegna aukinnar losunar á koltvísýringi (Þórólfur Matthíasson 2001). Skiptar skoðanir eru um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar án þess að fórnarkostnaður sé tekinn með inn í dæmið. Ef reiknað væri með fórnarkostnaði, eins og Alþjóðabankinn mælir með (Þórólfur Matthíasson 2002), þá yrði eflaust allur vafi tekinn af um arðsemi verkefnisins. Virkjanir á Íslandi hafa í gegnum tíðina fengið ýmiss konar meðgjöf sem einkafyrirtæki njóta ekki. Meðgjöfin sem Kárahnjúkavirkjun fær er þrenns konar: ríkisábyrgð á lán tryggir lægri vexti, það er ekki greiddur tekju- og eignaskattur af virkjuninni og landið undir virkjunina fæst ókeypis. Einkafyrirtæki njóta engra fríðinda af þessu tagi og þar af leiðandi er samkeppnin ekki á réttum forsendum (Sigurður Jóhannesson 2001). Í markaðskerfi, þar sem allir keppa eftir sömu reglum verður sá rekstur jafnan ofan á sem gefur mest af sér. Ef stjórnvöld velja að gefa sumum rekstri meðgjöf en öðrum ekki þá er hætt við því að arðbær rekstur þurfi að þoka fyrir rekstri sem gefur minna af sér (Sigurður Jóhannesson 2002). Það er því ljóst að ef virkjanir eru það slæmir fjárfestingarkostir að meðgjöf ríkis þurfi til að hrinda þeim í framkvæmd þá geta þær haft slæm áhrif á önnur fyrirtæki og þar af leiðandi slæm áhrif á efnahag landsins. Virkjanir og stóriðja hafa í för með sér ruðningsáhrif sem geta rutt öðrum fyrirtækjum út af markaðinum og dregið þannig úr hagvexti. Þessi ruðningsáhrif eru ferns konar: vextir hækka, gengi krónunnar hækkar, þensla á vinnumarkaði leiðir til hærri launa og hætta er á að það verði erfiðara að afla áhættufjár til annars en virkjana næstu árin á eftir. Hærri vextir þýða það að lánsfé til fyrirtækja verður dýrara og í kjölfarið hægja fyrirtæki á umsvifum sínum (Sigurður Jóhannesson 2002). Ef vextir hækka þá er einnig hætta á að rutt verði í burtu fyrirtækjum sem skapa gjaldeyristekjur og gætu verið arðbær þegar gengi krónunnar nær jafnvægi á ný (Edda Rós Karlsdóttir 2003). Hátt gengi krónunnar er slæmt fyrir útflutningsfyrirtæki og fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni. Hækkun launa meðan framkvæmdir standa yfir 9

12 leiðir til hærri launakostnaðar fyrir fyrirtæki í öðrum greinum og mörg þeirra mega hreinlega ekki við því. Þegar erfitt er að afla áhættufjár skapast færri ný atvinnutækifæri á almennum markaði (Sigurður Jóhannesson 2002). Sigurður Jóhannesson (2003) telur að ætla megi að starfsemin sem vikið verður til hliðar vegna ruðningsáhrifa framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál geti numið um 3% af landsframleiðslunni á ári. Þetta verða líklega útflutningsfyrirtæki og fyrirtæki í samkeppni við útlönd en þessi fyrirtæki eru viðkvæm fyrir kostnaðarsveiflum. Það er líklegt að þeir sem missa störfin sín í þessum greinum meðan á framkvæmdum stendur geti fengið vinnu í öðrum greinum sem hagnast af framkvæmdunum, þau störf hverfa hinsvegar þegar framkvæmdunum lýkur og þá hafa þeir sem áður störfuðu við útflutnings- og samkeppnisgreinar ekki um auðugan garð að gresja (Sigurður Jóhannesson 2002). Gera má ráð fyrir að staðbundin ruðningsáhrif verði töluverð, t.d þá gæti snögg hækkun á húsnæðisverði á Austurlandi rutt í burtu einhverjum af þeim fyrirtækjum sem fyrir eru en hafa ekki bolmagn til að borga hærri leigu. Ruðningsáhrif eru eðlilegur fylgifiskur stórframkvæmda. Þau eru einungis réttlætanleg ef að sú starfsemi sem bætist við vegna framkvæmdanna er hagkvæmari en sú sem víkur (Þorsteinn Siglaugsson 2002). Þar sem Kárahnjúkavirkjun er óhagkvæm fjárfesting og störf í álveri óspennandi kostur þá er nokkuð ljóst að svo er ekki. Það er hæpið að telja að ný störf sem skapast vegna stóriðju vegi upp á móti taprekstri virkjunar. Þeir sem hafa þessa skoðun líta svo á að ný störf sem skapist vegna stóriðju séu verðmætari en tapið af virkjuninni og störfin sem tapast vegna ruðningsáhrifa. Til að störf við stóriðju og afleidd störf vegna hennar geti talist sem ávinningur af virkjunum og stóriðjuframkvæmdum þá þurfa þessi störf að vera fleiri en störfin sem tapast vegna ruðningsáhrifanna. Afleidd störf falla til samfara hagvexti, hvort sem hagvöxturinn kemur til vegna stóriðju eða annarrar starfsemi, en hagvöxtur mælir aukningu á landsframleiðslu á ákveðnu tímabili eftir að tekið hefur verið tillit til verðbólgu (Fjármálaráðuneytið 2005). Hér á undan var talað um að líklega yrðu fyrirtæki sem jafngilda 3% af landsframleiðslu að víkja vegna ruðningsáhrifa framkvæmdanna (Sigurður Jóhannesson 2003) en gera má ráð fyrir að störf tapist í hlutfalli við það. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir í skýrslu sinni að varanleg aukning vergrar landsframleiðslu vegna Kárahnjúkavirkjunar og Reyðaráls muni verða á bilinu 0,8 til 1,5% (Þórólfur Matthíasson 2001). Þessar tölur vekja spurningar um hvort hagvöxtur á næstu árum yrði í raun meiri án tilkomu Kárahnjúkavirkjunar og 10

13 Reyðaráls. Þar af leiðandi er hætta á að virkjunin og stóriðjan verði frekar til fækkunar starfa á landsvísu heldur en fjölgunar. Störfum á svæðinu sem virkjunin og stóriðjan verða á fjölgar án efa en störfum á öðrum stöðum er fórnað. Markmið stjórnvalda með virkjun og stóriðju á Austurlandi er að fjölga störfum á svæðinu og treysta þar með byggð. Reyðarál vinnur hinsvegar í leiðinni þvert á markmið stjórnvalda því framkvæmdin felur í sér mikla byggðaröskun, en framkvæmdirnar vegna Reyðaráls eru aðeins mögulegar með því að fjöldi manns flytji á staðinn (Ásgeir Jónsson 2002). Framkvæmdirnar fyrir austan toga til sín fólk úr öðrum landshlutum, þar á meðal í fólk af jaðarsvæðum og veikja því búsetuskilyrðin þar. Fólkið á svæðunum sem veikjast vegna framkvæmdanna mun svo í kjölfarið þrýsta á stjórnvöld að hefja opinberar framkvæmdir á sínu svæði til mótvægis við framkvæmdir annars staðar (Sigurður Jóhannesson 2003). Fæst svæði á Íslandi hafa nógu stóran vinnumarkað til að manna stóriðju og því myndi byggðastefna með áherslu á slíkt alltaf hafa í för með sér mikla fólksflutninga. Þegar rætt er um stóriðju hérlendis er yfirleitt verið að ræða um álver, en álver eru stærsti orkunotandinn á landinu (Landsvirkjun 2005b). Draga má úr sveiflum í útflutningi með aukinni fjölbreytni, þegar álframleiðsla hófst á Íslandi dró hún úr sveiflum þar sem hún jók fjölbreytni í útflutningi (Axel Hall og Ásgeir Jónsson 2001). Þegar Reyðarál verður komið í gagnið þá mun ál vera rúmlega 40% af útflutningi landsins, það mun því auka sveiflur og einhæfni í útflutningi (Ásgeir Jónsson 2002). Þegar hlutfall álframleiðslu er orðið of hátt þá munu sveiflur í álverði og framleiðslu stjórna sveiflum í útflutningi landsins (Axel Hall og Ásgeir Jónsson 2001). Það er áhættusamt að hafa miklar sveiflur í útflutningi, þar af leiðandi eru einhæfar útflutningsvörur ekki æskilegar. Það myndi því draga úr áhættu fyrir þjóðarbúið ef stjórnvöld héldu úti byggðastefnu sem stuðlaði að fjölbreytileika fremur en einhæfni. Stóriðja borgar lægra verð fyrir raforku en almenningur, það er ekkert óeðlilegt við það því kostnaður við virkjanir til stóriðju er lægri en kostnaður við virkjanir til almenningsnotkunar. Kostnaðarmunurinn kemur til vegna þess að raforkunotkun stóriðju er jafnari en notkun almennings og því þarf að setja upp flóknari búnað í virkjunum til almenningsveita (Sigurður Jóhannesson 2002). Samkvæmt grein Sigurðar Jóhannessonar (2000) þá greiðir almenningur 20% stóriðjuálag á rafmagnsverð. Sigurður kemst að þessari niðurstöðu með því að bera saman kostnað virkjana til stóriðju og almennings, og tekjur Landsvirkjunar af sölu raforku til almennings og stóriðju. Kostnaður við virkjanir til almennrar raforkusölu 11

14 var árið 1990 áætlaður 36% hærri en kostnaður við virkjanir til stóriðju. Árið 1999 seldi Landsvirkjun 66% af raforku sinni til stóriðju en aðeins 38% af tekjunum komu þaðan. Samkvæmt kostnaðarmatinu frá 1990 hefðu 59% af tekjum af raforkusölu átt að koma frá stóriðju (Sigurður Jóhannesson 2000). Af þessu má álykta að raforkuverð til stóriðju sé of lágt til að skila arði og almenningur sé látinn borga mismuninn. Landsvirkjun er einokunarfyrirtæki og því er auðvelt að láta almenna neytendur gjalda fyrir rangar virkjunarákvarðanir (Ásgeir Jónsson 2002). Gera má ráð fyrir að sífellt erfiðara verði fyrir almenning að greiða niður orkuverðið til stóriðju eftir því sem hlutur rafmagns til stóriðju eykst (Sigurður Jóhannesson 2000). Að lokum má nefna að óraunhæft er að einblína á stóriðju sem byggðalausn,. Hvers vegna ættu erlendir stóriðjurisar að vilja staðsetja verksmiðju í jaðarbyggð þegar bestu aðstæðurnar til framleiðslunnar eru til staðar í Hvalfirði? Það er einnig áhættusamt að leggja allt í sölurnar fyrir stóriðju þegar óvíst er hvort hún verði nokkurn tíma að veruleika. 12

15 2 BETRI LAUSNIR Í BYGGÐAMÁLUM Mannauðskenningin (e. Human Capital Theory) mótaðist um miðja 20. öldina og var Theodor V. Schultz, forseti Samtaka bandarískra hagfræðinga, upphafsmaður hennar. Kenningin er í raun hagfræðilegt fylgnilíkan milli menntunar og hagsældar (Ingi Rúnar Eðvarðsson o.fl. 2002). Hún felur í stuttu máli í sér að aukin menntun auki framleiðni til hagsældar fyrir einstaklinga og samfélagið allt. Verðmæti hráefnis og framleiðsluvöru víkur fyrir verðmætum sem felast í hverjum einstaklingi (Gerður G. Óskarsdóttir 2000). Með þessa kenningu í huga má leiða líkur að því að tími stóriðju sem byggðastefnu á Íslandi sé einfaldlega liðinn. Víða erlendis má sjá að álfyrirtæki kjósa í æ minna mæli að staðsetja álfyrirtæki sín í iðnríkjum og sem dæmi má nefna að bandaríska álfyrirtækið Alcoa, sem nú reisir álver á Reyðarfirði, hefur í athugun verkefni í Kína, Brunei og Bahrain svo dæmi séu tekin (Alcoa 2005). Þessi staðreynd vekur upp spurningar um hvers vegna íslensk stjórnvöld kjósa að feta slóð virkjana og stóriðjuframkvæmda í byggðastefnu sinni. Í svo vel stæðu landi sem Ísland er væri skynsamlegra að koma illa stöddum byggðalögum til hjálpar með öðrum aðferðum en stóriðjuframkvæmdum t.a.m. byggðastefnu sem fæli í sér sérstaka áherslu á mannauð í formi uppbyggingu mennta-, rannsókna- og nýsköpunarsetra á landsbyggðinni. Þannig mætti virkja frumkvæði íbúanna sjálfra en því hefur verið haldið fram að byggðalausnir verði að vera staðbundnar og byggjast á frumkvæði og forsendum íbúanna sjálfra eigi þær að ná árangri (Ásgeir Jónsson 2003). Ljóst er að það tekur tíma að byggja upp góða menntastefnu en menntunin skilar sér hins vegar fljótt til samfélagsins í formi fjölbreyttara atvinnulífs og aukinna afkasta. Sem dæmi má nefna að Akureyri hefur jákvæðan flutningsjöfnuð gagnvart öllum stöðum á landinu utan Reykjavíkur. Vafalítið á góð uppbygging menntamála bæjarins stóran þátt í styrkri stöðu hans. Þá má einnig nefna að bæir eins og Sauðárkrókur, Húsavík, Egilsstaðir og Selfoss draga að sér fólk frá sínum upplöndum (Axel Hall o.fl. 2002) og styrka stöðu þessara byggða má að einhverju leyti rekja til þess að þar eru reknir öflugir framhalds- og menntaskólar. Auður í krafti kvenna var verkefni á vegum Nýsköpunarsjóðs á árunum Markmið verkefnisins var að auka þátt íslenskra kvenna í atvinnusköpun. Verkefnið var unnið í samstarfi við Íslandsbanka, Deloitte & Touche og Morgunblaðið. Háskólanum í Reykjavík var svo falin umsjón með framkvæmd 13

16 verkefnisins. Verkefnið skiptist í fjóra þætti: LeiðtogaAuður, FramtíðarAuður, FjármálaAuður, FrumkvöðlaAuður og Auðardætur með í vinnuna. Verkefnið byggðist á námskeiðahaldi, mótun viðskiptahugmynda, fjármálafræðslu, tengslamyndun og starfskynningum. Þegar verkefninu lauk höfðu 1480 konur tekið þátt og þátttakendur í FrumkvöðlaAuði höfðu stofnað alls 51 nýtt fyrirtæki sem veittu alls 217 ný störf (Félagið Auður 2005). Verkefnið fól í sér litla áhættu og kostaði Nýsköpunarsjóð aðeins 63 milljónir en verkefnið var einnig styrkt af Íslandsbanka (Nýsköpunarsjóður 1999, 2000, 2001, 2002). Verkefni svipuð Auði í krafti kvenna þurfa að sjálfsögðu ekki að takmarkast við konur. Verkefni af þessu tagi úti á landsbyggðinni myndi virkja frumkvæði íbúa til atvinnusköpunar. Störfin sem kæmu til yrðu af mun fjölbreyttari meiði en störfin sem stóriðjustefna leiðir af sér. Störfin myndu krefjast misjafnlega mikillar og fjölbreyttrar menntunar og leiða af sér afleidd störf með tímanum. Verkefni af þessu tagi fela í sér litla áhættu og kosta einungis brotabrot af því sem virkjanaframkvæmdir kosta þjóðina. Umhverfinu yrði ekki fórnað og heimamenn myndu stjórna nýju fyrirtækjunum. Með verkefni sem þessu skapast vitaskuld ekki jafn mörg störf á einu bretti eins og með tilkomu stóriðju en verkefni sem þetta er raunhæfur kostur. Þar að auki myndi svona átak ekki leiða til byggðaröskunar líkt og stóriðja myndi gera. Sígandi lukka er best. 14

17 LOKAORÐ Stóriðja og virkjanir eru ekki rétta lausnin í byggðamálum. Í fyrsta lagi þá skaðar þess háttar starfsemi ímynd landsins út á við og takmarkar þar með möguleika í ferðaþjónustu og markaðssetningu landbúnaðarafurða erlendis. Virkjanir til stóriðju ganga á auðlindir landsins sem jafnvel mætti nýta á arðbærari hátt ef þær yrðu varðveittar. Stóriðja og virkjanir sem byggðastefna samræmast ekki kröfum nútímans um fjölbreytt atvinnulíf og hátt þekkingarstig. Enn fremur þá kemur slík atvinnustarfsemi ekki til móts við atvinnuþarfir kvenna. Að lokum má nefna að framkvæmdir af þessu tagi eru mjög áhættusamar og geta haft slæm áhrif á þjóðarbúskapinn. Vænlegra er að byggja byggðastefnu á aukinni menntun, rannsóknum og nýsköpun. Slík byggðastefna felur í sér staðbundnar lausnir sem byggja á frumkvæði íbúanna og stuðla ekki að byggðaröskun. 15

18 HEIMILDASKRÁ Alcan á Íslandi 2005: Fólkið. Hafnarfjörður, Alcan á Íslandi. (Skoðað 14. febrúar 2005). Alcoa 2005: Alcoa Worldwide. Pittsburgh PA, Alcoa. (Skoðað 18. febrúar 2005). Anna Dóra Sæþórsdóttir 1998: Ferðamennska og virkjanir á hálendinu norðan Vatnajökuls. Landabréfið, 14-15:1, Axel Hall og Ásgeir Jónsson 2001: Áhættan við álið. Viðskiptablaðið, 8:12, 7. Axel Hall, Ásgeir Jónsson og Sveinn Agnarsson 2002: Byggðir og búseta. Þéttbýlismyndun á Íslandi. Reykjavík, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, 213 s. Ásgeir Jónsson 2002: Þjóðnýting vatnsorkunnar. Viðskiptablaðið, 9:33, 13. Ásgeir Jónsson 2003: Á að streitast við að halda úti litlum kauptúnum? Frjáls verslun, 65:5, 42. Ásgeir Jónsson 2004: Að græða á gestakomum: Þjóðhagslegur ábati ferðaþjónustu og hlutverk ríkisins. Landabréfið 20:1, Bændablaðið 2003: Lambakjöt í Vesturheimi. 18:9, Edda Rós Karlsdóttir 2003: Vaxtahækkanir vegna stóriðju gætu rutt í burtu fyrirtækjum. Frjáls verslun. 65:2, 53. Ferðamálaráð Íslands 2004: Könnun meðal erlendra ferðamanna sumarið Reykjavík, Ferðamálaráð Íslands (Skoðað 14. febrúar 2005). Félagið Auður 2005: Forsaga félagsins. (skoðað 21. febrúar 2005). Fjármálaráðuneytið 2005: Ríkiskassinn orðskýringar. Reykjavík, Fjármálaráðuneytið (skoðað 20. febrúar 2005). Flosi Hrafn Sigurðsson, Hreinn Kjartansson, Torfi Karl Antonsson, Þórður Arason 2003: Wind and Stability Observation in Reyðarfjörður June 2002-May Reykjavík, Veðurstofa Íslands (Skoðað 14.febrúar 2005). Gerður G. Óskarsdóttir 2000: Framtíðarskólinn. Uppeldi. 13:3, Gunnhildur Guðbrandsdóttir 2004: Ungar konur, álver og vinnumarkaðurinn. Óútgefin B.S. ritgerð, Háskóli Íslands, Raunvísindadeild, 43 s. 16

19 Grétar Þór Eyþórsson, Kjartan Ólafsson og Hjalti Jóhannesson 2001: Kárahnjúkavirkjun. Mat á samfélagsáhrifum. rkjun.pdf Akureyri, Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri. (Skoðað 14. febrúar 2005). Hagstofa Íslands 2004a Ferðamál, samgöngur og upplýsingatækni Reykjavík, Hagstofa Íslands (Skoðað 14.febrúar 2005). Hagstofa Íslands 2004b: Konur og karlar Reykjavík, Hagstofa Íslands. (Skoðað 15. febrúar 2005). Hagstofa 2005a: Búferlaflutningar. msrc=/temp/mannfjoldi/buferlaflutningar.asp Reykjavík, Hagstofa Íslands. (Skoðað 15. febrúar 2005). Hagstofa Íslands 2005b: Vinnumarkaður. msrc=/temp/vinnumarkadur/rannsoknir.asp Reykjavík, Hagstofa Íslands. (Skoðað 15. febrúar 2005). Hansen, J.C. 2004: Ungdoms forhold til sted. Er Rjukan et blivende sted? Bergen, Universitetet i Bergen. (Skoðað 18. febrúar 2005). Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti 2003: Niðurstöður 1.áfanga rammaáætlunar/verkefnisstjórn um gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Reykjavík, Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið (Skoðað 14.febrúar 2005). Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti 2004: Meginstefnumið iðnaðar- og viðskiptaráðherra árin Reykjavík, Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti. (Skoðað 14. febrúar 2005). Ingi Rúnar Eðvarðsson, Elín M. Hallgrímsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Grétar Þór Eyþórsson 2002: Háskólamenntun og búseta. Tengsl menntunarstaðar og búsetuvals. Akureyri, Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, Byggðarannsóknastofnun Íslands, 40 s. Kolbjørnsen, M. 2002: Flytting et identitetsprosjekt. Osló, Forskning.no. (Skoðað 18. febrúar 2005). Landsvirkjun 2005a: Um Landsvirkjun: Saga Landsvirkjunar. Reykjavík, Landsvirkjun (Skoðað 18. febrúar 2005). 17

20 Landsvirkjun 2005b: Viðskiptavinir:Rafmagnssala:Umfang sölunnar. Reykjavík, Landsvirkjun (Skoðað 19. febrúar 2005). Morgunblaðið 2000 (28.nóv.): Stækkun getur haft áhrif á byggðaþróun í landinu, 15. Náttúruverndarsamtök Íslands 2002: Um Kárahnjúkavirkjun Reykjavík, Náttúruverndarsamtök Íslands (Skoðað 15. febrúar 2005). Nýsköpunarsjóður 1999: Ársskýrsla NSA Reykjavík, Nýsköpunarsjóður, 17 s. Nýsköpunarsjóður 2000: Ársskýrsla NSA Reykjavík, Nýsköpunarsjóður, 52 s. Nýsköpunarsjóður 2001: Ársskýrsla NSA Reykjavík, Nýsköpunarsjóður, 50 s. Nýsköpunarsjóður 2002: Ársskýrsla NSA Reykjavík, Nýsköpunarsjóður, 53 s. Ragnar Ingimundarson 2003: Áhrif stóriðjuframkvæmda á Austurlandi á íslenskan vinnumarkað og íbúaþróun. Óútgefin B.S. ritgerð, Háskóli Íslands, Viðskipta- og hagfræðideild, 50 s. Sigurður Jóhannesson 2000: Stóriðjuálag á rafmagnsverð er 20%. Vísbending, 18:41, 1 og 4. Sigurður Jóhannesson 2001: Látum markaðinn meta Kárahnjúkavirkjun. Vísbending, 19:49, 2-3. Sigurður Jóhannesson 2002: Össur þokar fyrir álverum. Vísbending, 20:38, 3. Sigurður Jóhannesson 2003: Þensla um ókomna tíð. Vísbending, 21:11, 3-4. Sigurður Jóhannesson 2005: Efnahagsstofnanir og stórvirkjanir. Vísbending, 23:4, 3. Sigurður Sigurðarson 2003: Unga fólkið fór. Aldursskipting á Norðurlandi vestra 1992 og Sauðárkrókur: Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra: Byggðastofnun, 59 s. Tryggvi Felixsson 2003: Kyoto-bókunin í höfn Reykjavík, Landvernd (Skoðað 14.febrúar 2005). Þjóðhagsstofnun 2000: Athugun á stöðu kvenna á landsbyggðinni. Reykjavík, Félagsmálaráðuneytið, 26 s. Þorsteinn Siglaugsson 2002: Greinargerð um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Reykjavík, Náttúruverndarsamtök Íslands, 29 s. Þórólfur Matthíasson 2001: Þjóðhagslega hagkvæmt, ha? Vísbending, 19:26, 2 og 4. 18

21 Þórólfur Matthíasson 2002: Hverju er fórnað fyrir virkjanir?. Vísbending, 20:35, 3. 19

R3123A Markarfljótsvirkjun B

R3123A Markarfljótsvirkjun B R3123A Markarfljótsvirkjun B Viðauki 20 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/04 Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar R3123A Markarfljótsvirkjun B Viðauki 20 af 92 við skýrslu Orkustofnunar

Detaljer

majl Eríndi nr. Þ /^ 3 /^ 3 komudagur 2% l 20IÍ

majl Eríndi nr. Þ /^ 3 /^ 3 komudagur 2% l 20IÍ Afskriftir nátnslána - minnisblað majl Eríndi nr. Þ /^ 3 /^ 3 komudagur 2% l 20IÍ 1Norður Noregi hafa námslán íbúa um langt skeið verið færð niður um vissa upphæð árlega. Námslán eru afskrifuð um 10% á

Detaljer

Norska fiskveiðistjórnunarkerfið og markaðssetning norskra afurða. Jóhannes Pálsson, framkvæmdastjóri framleiðslu Norway Seafood AS.

Norska fiskveiðistjórnunarkerfið og markaðssetning norskra afurða. Jóhannes Pálsson, framkvæmdastjóri framleiðslu Norway Seafood AS. Norska fiskveiðistjórnunarkerfið og markaðssetning norskra afurða Jóhannes Pálsson, framkvæmdastjóri framleiðslu Norway Seafood AS. Helstu markaðir fyrir norskar sjávarafurðir Heildarútflutningsverðmæti

Detaljer

Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar Kafli 6.52 R3154A Blöndudalsvirkjun

Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar Kafli 6.52 R3154A Blöndudalsvirkjun Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar Kafli 6.52 R3154A Blöndudalsvirkjun Erla Björk Þorgeirsdóttir Kristinn Einarsson Linda Georgsdóttir OS-2013/01 978-9979-68-326-1 Orkustofnun Orkugarður

Detaljer

Lausnir Nóvember 2006

Lausnir Nóvember 2006 Lausnir Nóvember 2006 Bls. 1 Reikningur a) 80 d) 27 g) 2400 b) 33 e) 42 h) 410 c) 54 f) 96 i) 640 9 tölur. a) 1 48 b) 1 64 c) 1 90 d) 1 128 2 24 2 32 2 45 2 64 3 16 4 16 3 30 4 32 4 12 8 8 5 18 8 16 6

Detaljer

Meginreglur um bótaábyrgð eignarnema

Meginreglur um bótaábyrgð eignarnema Guðlaug Björg Ingólfsdóttir Meginreglur um bótaábyrgð eignarnema -BA ritgerð til BA prófs í lögfræði - Umsjónarkennari: Arnar Þór Stefánsson Lagadeild Háskóla Íslands Apríl 2009 EFNISYFIRLIT 1 Inngangur...2

Detaljer

Gróðureldar náttúruvá viðvaranir - spár. Sigrún Karlsdóttir Sibylle von Löwis Trausti Jónsson

Gróðureldar náttúruvá viðvaranir - spár. Sigrún Karlsdóttir Sibylle von Löwis Trausti Jónsson Gróðureldar náttúruvá viðvaranir - spár Sigrún Karlsdóttir Sibylle von Löwis Trausti Jónsson Gróðureldar Gróðureldar geta kviknað í sinu mjög þurrum gróðri rakastig og úrkomumagn skiptir því máli Gróðureldar

Detaljer

gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr.

gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr. . gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr. 160/2010 Almennar kröfur til íbúða Í grein í byggingarreglugerð segir: Hver einstök

Detaljer

Varðar: Athugasemdir við Frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins, rit nr. 2/2015.

Varðar: Athugasemdir við Frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins, rit nr. 2/2015. Samkeppniseftirlitið, b.t. Vals Þráinssonar, Borgartún 26, 105 Reykjavík. Reykjavík 11. mars 2016. Varðar: Athugasemdir við Frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins, rit nr. 2/2015. Samkeppniseftirlitið

Detaljer

Verkefnahefti 3. kafli

Verkefnahefti 3. kafli Verkefnahefti. kafli Skali A Verkefnablöð 0 Námsgagnastofnun. KAFLI .. Cuisinaire-kubbar hvítur appelsínugulur rauður blár ljósgrænn brúnn fjólublár svartur gulur dökkgrænn dökkgrænn svartur gulur fjólublár

Detaljer

Skýrsla um reynslu Norðmanna af sæstrengjum

Skýrsla um reynslu Norðmanna af sæstrengjum Skýrsla um reynslu Norðmanna af sæstrengjum Maí 2016 1. Inngangur. Raforkumarkaðir Íslands og Noregs hafa það sameiginlegt að byggja að mestu á framleiðslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þessu

Detaljer

FJÁRMÖGNUN NÝSKÖPUNAR OG RANNSÓKNA Í NOREGI Í FISKELDI OG SJÁVARÚTVEGI

FJÁRMÖGNUN NÝSKÖPUNAR OG RANNSÓKNA Í NOREGI Í FISKELDI OG SJÁVARÚTVEGI FJÁRMÖGNUN NÝSKÖPUNAR OG RANNSÓKNA Í NOREGI Í FISKELDI OG SJÁVARÚTVEGI Friðrik Sigurðsson, rekstrarráðgjafi, SINTEF MRB AS Reykjavík 16. apríl 2009 Heimilt er að nota upplýsingar í heild eða að hluta úr

Detaljer

Beiting enduröflunarverðs við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta

Beiting enduröflunarverðs við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta Sigurbjörg Rut Hoffritz Beiting enduröflunarverðs við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta - BA-ritgerð í lögfræði - Umsjónarkennari: Arnar Þór Stefánsson Lagadeild Háskóla Íslands Júní 2009 EFNISYFIRLIT

Detaljer

Útgáfa Orkumála með nýju sniði 1. ÁRG. 2. TBL. DESEMBER 2005 ISSN

Útgáfa Orkumála með nýju sniði 1. ÁRG. 2. TBL. DESEMBER 2005 ISSN ORKUMÁL24 1. ÁRG. 2. TBL. DESEMBER 25 ISSN 127-563 ELDSNEYTI Útgáfa Orkumála með nýju sniði Á undanförnum árum hefur ritið Orkumál verið gefið út með tölulegum upplýsingum um íslensk orkumál, þ.e. raforkuiðnaðinn,

Detaljer

Nutricia. næringardrykkir

Nutricia. næringardrykkir 1 Nutricia næringardrykkir Athugið: Nutridrink næringardrykki skal geyma við 5-25 C, geymast í 24 klst. í kæli eftir að flaskan hefur verið opnuð. Flestir kjósa að drekka næringardrykkina kalda en einnig

Detaljer

Leiðbeiningar

Leiðbeiningar . gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013 og 280/2014 Lög um mannvirki, nr. 160/2010 Bílastæði hreyfihamlaðra Í grein í byggingarreglugerð segir: Bílastæði hreyfihamlaðra

Detaljer

Íslensk netverslun. áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni RANNSÓKNASETUR VERSLUNARINNAR

Íslensk netverslun. áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni RANNSÓKNASETUR VERSLUNARINNAR Íslensk netverslun áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni RANNSÓKNASETUR VERSLUNARINNAR Íslensk netverslun áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni 978-9935-9275-1-4 2018 Rannsóknin var

Detaljer

Kaup Basko ehf. á Eldum rétt ehf.

Kaup Basko ehf. á Eldum rétt ehf. Miðvikudagur, 9. maí 2018 Ákvörðun nr. 14/2018 Kaup Basko ehf. á Eldum rétt ehf. I. Málavextir og málsmeðferð Samkeppniseftirlitinu barst bréf þann 27. mars 2018 þar sem tilkynnt var um kaup Basko ehf.

Detaljer

viðaukum. Birtist í Tímariti lögfræðinga, 3. hefti, 45. árg., 1995, bls

viðaukum. Birtist í Tímariti lögfræðinga, 3. hefti, 45. árg., 1995, bls Tveir dómar um takmörkun ábyrgðar farmflytjanda. 1 Meðal sérkenna sjóréttarins er takmörkun ábyrgðar. Á öðrum réttarsviðum er bótaábyrgð almennt ekki takmörkuð við tilteknar, fyrirfram ákveðnar fjárhæðir,

Detaljer

Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar Kafli 6.31 R3133A Bláfellsvirkjun

Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar Kafli 6.31 R3133A Bláfellsvirkjun Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar Kafli 6.31 R3133A Bláfellsvirkjun Erla Björk Þorgeirsdóttir Kristinn Einarsson Linda Georgsdóttir OS-2013/01 978-9979-68-326-1 Orkustofnun Orkugarður

Detaljer

Ordliste for TRINN 1

Ordliste for TRINN 1 Ordliste for TRINN 1 (utviklende matematikk-oppgavehefter 1A, 1B,2A, 2B, 3A og 3B, - refleksjonsord som kan hjelpe å forstå oppgaver). Bok og side Ord på norsk I oppgavetekstene står ofte verb i imperativ

Detaljer

að veita meira fjármagni NDF til að styðja við loftslagsverkefni í þróunarlöndum þar sem tekjur eru lágar

að veita meira fjármagni NDF til að styðja við loftslagsverkefni í þróunarlöndum þar sem tekjur eru lágar NEFNDARTILLAGA Nefndartillaga um hlutverk norrænu fjármögnunarstofnananna NIB, NEFCO og NDF í loftslagsmálum 1. Tillaga nefndarinnar náttúruauðlindanefnd leggur til að beini tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna

Detaljer

Leiðbeiningar gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr.

Leiðbeiningar gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr. . gr. byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016 Lög um mannvirki, nr. 160/2010 Bílastæði hreyfihamlaðra Í grein í byggingarreglugerð segir: Bílastæði hreyfihamlaðra

Detaljer

sþ Tillaga til þingsályktunar [115. mál]

sþ Tillaga til þingsályktunar [115. mál] sþ. 118. Tillaga til þingsályktunar [115. mál] um heimild fyrir ríkisstjórnina að staðfesta samkomulag milli Íslands og Noregs um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. (Lögð fyrir Alþingi á

Detaljer

Eftirfylgni með árs ungmennum í Hordaland í Noregi sem eru ekki í skóla eða vinnu.

Eftirfylgni með árs ungmennum í Hordaland í Noregi sem eru ekki í skóla eða vinnu. Eftirfylgni með 16-21 árs ungmennum í Hordaland í Noregi sem eru ekki í skóla eða vinnu. Lára Hreinsdóttir Lokaverkefni til MA gráðu í náms- og starfsráðgjöf Félagsvísindasvið Eftirfylgni með 16-21 árs

Detaljer

Upplýsingar er varða störf erlendis (Dags. 02.12.2008. Listinn verður uppfærður reglulega eftir því sem nýjar upplýsingar berast).

Upplýsingar er varða störf erlendis (Dags. 02.12.2008. Listinn verður uppfærður reglulega eftir því sem nýjar upplýsingar berast). Upplýsingar er varða störf erlendis (Dags. 02.12.2008. Listinn verður uppfærður reglulega eftir því sem nýjar upplýsingar berast). Yfirlit yfir samstarfsaðila í Noregi Örstutt um stöðuna í Noregi Það er

Detaljer

Héraðsdómurinn var staðfestur í Hæstarétti með vísan til forsendna hans.

Héraðsdómurinn var staðfestur í Hæstarétti með vísan til forsendna hans. Úrskurður 9/2007 Kærður er úrskurður tollstjórans á Seyðisfirði þar sem tollverð bifreiðar sem flutt var úr landi til aðvinnslu er ákvarðað m.v. heildarverðmæti bifreiðarinnar. Kærandi gerði þá kröfu að

Detaljer

UM SJÁVARFALLASPÁR. Náttúiufrœðingurinn 69 (I), bls , 2000.

UM SJÁVARFALLASPÁR. Náttúiufrœðingurinn 69 (I), bls , 2000. ÞORSTEINN SÆMUNDSSON UM SJÁVARFALLASPÁR Sjávarföllin hafa frá fyrstu tíð vakið athygli þeirra sem við strendur búa eða sjómennsku stunda. Að sæfarendur þurfi að taka tillit til flóðs og fjöru er deginum

Detaljer

Magn og uppspretta svifryks

Magn og uppspretta svifryks Ylfa Thordarson Nemi í umhverfis- og byggingaverkfræði Magn og uppspretta svifryks Rannsókn á loftmengun í Reykjavík. Október 2000 1. Samantekt Nýlega hefur almenningi orðið ljóst að höfuðborgarsvæðið

Detaljer

Frístundahús. Leiðbeiningar. Leiðbeiningar. Mannvirkjastofnun

Frístundahús. Leiðbeiningar. Leiðbeiningar. Mannvirkjastofnun . gr. byggingarreglugerðar, nr.112/2012, sbr. rgl. nr. 1173/2012, 350/2013 og 280/2014 Lög um mannvirki, nr. 160/2010 Frístundahús Í grein í byggingarreglugerð segir: Almennar hollustuháttakröfur íbúða

Detaljer

Alþingi Erindi nr. Þ 140/1532 komudagur Umsögn. Barnalög (barns, forsjá, umgengni o.fl.) 290. mál lagafrumvarp 140. löggjafarþingi.

Alþingi Erindi nr. Þ 140/1532 komudagur Umsögn. Barnalög (barns, forsjá, umgengni o.fl.) 290. mál lagafrumvarp 140. löggjafarþingi. Alþingi Erindi nr. Þ 140/1532 komudagur 14.3.2012 FÉLAG UM FORELDRAJAFNRÉTTI BARN Á RÉTT Á BÁBUM FCRELDRUM Nefndarsvið Alþingis Velferðarnefnd Austurstræti 8-10 150 Reykjavík Dagsetning. 14. mars 2012

Detaljer

PÆLINGAR UM NPA EFNI:

PÆLINGAR UM NPA EFNI: PÆLINGAR UM NPA EFNI: I. INNGANGUR... 2 II. HVERJIR EIGA AÐ FÁ NPA-SAMNING? REGLUR Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU... 4 III. ÚR REGLUM Á ÖÐRUM NORÐURLÖNDUM... 7 IV. HUGLEIÐINGAR UM HVERJIR EIGI AÐ FÁ EÐA GETI NÝTT

Detaljer

Eðli skuldajafnaðar BA-ritgerð í lögfræði

Eðli skuldajafnaðar BA-ritgerð í lögfræði Eðli skuldajafnaðar BA-ritgerð í lögfræði Þorsteinn Ingason Lagadeild Félagsvísindasvið Umsjónarkennari: Heiðar Ásberg Atlason Júní 2013 Þorsteinn Ingason Eðli skuldajafnaðar BA-ritgerð í lögfræði Umsjónarkennari:

Detaljer

Notendastýrð persónuleg aðstoð á Norðurlöndum

Notendastýrð persónuleg aðstoð á Norðurlöndum Notendastýrð persónuleg aðstoð á Norðurlöndum Greinargerð Sambands íslenskra sveitarfélaga til velferðarnefndar Alþingis Janúar 2018 Í þessari greinargerð er fjallað um stærstu megindrætti í skipulagi

Detaljer

LV Heiðagæsaathuganir á Snæfellsöræfum 2012

LV Heiðagæsaathuganir á Snæfellsöræfum 2012 LV-2013-047 Heiðagæsaathuganir á Snæfellsöræfum 2012 LV-2013-047 Heiðagæsaathuganir á Snæfellsöræfum 2012 Apríl 2013 Efnisyfirlit Inngangur... 8 Rannsóknasvæði... 8 Aðferðir... 9 Niðurstöður... 10 Heiðagæsatalning

Detaljer

Frumvarp til laga. um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum. (Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi

Frumvarp til laga. um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum. (Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi Þskj. 189 170. mál. Frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum. (Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009 2010.) 1. gr. Á eftir 23. gr. laganna kemur ný grein,

Detaljer

Hvað ræður skattalegu heimilisfesti lögaðila skv. íslenskum skattarétti og ákvæðum tvísköttunarsamninga

Hvað ræður skattalegu heimilisfesti lögaðila skv. íslenskum skattarétti og ákvæðum tvísköttunarsamninga Háskólinn á Bifröst BS ritgerð - Haust 2012 Hvað ræður skattalegu heimilisfesti lögaðila skv. íslenskum skattarétti og ákvæðum tvísköttunarsamninga Jóhann Sveinn Sigurleifsson Leiðbeinandi: Elísabet Guðbjörnsdóttir

Detaljer

Loftslagsbreytingar og vegagerð Veðurfarsaðlögun í starfsemi Vegagerðarinnar

Loftslagsbreytingar og vegagerð Veðurfarsaðlögun í starfsemi Vegagerðarinnar mbl Loftslagsbreytingar og vegagerð Veðurfarsaðlögun í starfsemi Vegagerðarinnarr Áfangaskýrslaa 2009 Veðurvaktin Verkefnið er fjármagnað af Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar Vinnuhópur um veðurfarsaðlögun

Detaljer

Siðferði og samfélagsleg ábyrgð í sveitarfélögum

Siðferði og samfélagsleg ábyrgð í sveitarfélögum Siðferði og samfélagsleg ábyrgð í sveitarfélögum 2 Inngangur Á undanförnum árum hefur verið mikil umræða í Noregi um siðferði á sveitarstjórnarstigi og norska sveitarfélagasambandið, KS, hefur staðið fyrir

Detaljer

Framtíðarstefna í jafnlaunamálum

Framtíðarstefna í jafnlaunamálum Framtíðarstefna í jafnlaunamálum Tillögur aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti Október 2016 Samantekt þessi var unnin af Rósu Guðrúnu Erlingsdóttur fyrir aðgerðahóp

Detaljer

Bergen = Stavanger = Trondheim = Fredrikstad/Sarpsborg = Porsgrunn/Skien = Tromsö = 65.

Bergen = Stavanger = Trondheim = Fredrikstad/Sarpsborg = Porsgrunn/Skien = Tromsö = 65. Noregur og norska kerfið Nanna Þórunn Hauksdóttir Jan 2010 Bæir og fólksfjöldi fjöldi Oslo = 880.000000 Bergen = 230.000 Stavanger = 190.000 Trondheim = 160.000 Fredrikstad/Sarpsborg = 100.000 Drammen

Detaljer

BÖRN Í FJÖLTYNGDUM FJÖLSKYLDUM. UPPLÝSINGABÆKLINGUR Islandsk

BÖRN Í FJÖLTYNGDUM FJÖLSKYLDUM. UPPLÝSINGABÆKLINGUR Islandsk BÖRN Í FJÖLTYNGDUM FJÖLSKYLDUM UPPLÝSINGABÆKLINGUR Islandsk 1 FORMÁLI Upplýsingabæklingurinn fjallar um 10 spurningar sem foreldrar oft spyrja og sem beinast að fjöltyngdum málþroska barna. Að auki er

Detaljer

sþ. 503. Tillaga til þingsályktunar [200. mál]

sþ. 503. Tillaga til þingsályktunar [200. mál] sþ. 503. Tillaga til þingsályktunar [200. mál] um heimild fyrir rikisstjórnina að staðfesta samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál. Frá utanríkisráðherra. Alþingi ályktar að

Detaljer

Þverá, Langadalsströnd vhm 038 Rennslislykill #6

Þverá, Langadalsströnd vhm 038 Rennslislykill #6 ORKUSTOFNUN Grensásvegi 9, 108 Reykjavík Verknr. 540 550 /os/jfj/vmgogn/lyk/038/skyrsla038.t Þverá, Langadalsströnd vhm 038 Rennslislykill #6 Jóna Finndís Jónsdóttir OS-96064/VOD-11 B Nóvember 1996 - 2

Detaljer

Ábúðarjarðir í ríkiseigu

Ábúðarjarðir í ríkiseigu Skýrsla nr. C17:03 Ábúðarjarðir í ríkiseigu júlí 2017 1 HAGFRÆÐISTOFNUN HÁSKÓLA ÍSLANDS Hagfræðistofnun Háskóla Íslands Odda v/sturlugötu Sími: 525-5284 Heimasíða: www.hhi.hi.is Tölvufang: ioes@hi.is Skýrsla

Detaljer

REGLUR FYRIR ÚTGEFENDUR FJÁRMÁLAGERNINGA

REGLUR FYRIR ÚTGEFENDUR FJÁRMÁLAGERNINGA REGLUR FYRIR ÚTGEFENDUR FJÁRMÁLAGERNINGA NASDAQ OMX ICELAND HF. ÚTGEFNAR 17. desember 2013 INNGANGUR... 4 HLUTABRÉF... 5 1. TAKA HLUTABRÉFA TIL VIÐSKIPTA... 5 1.1 SKILYRÐI FYRIR TÖKU HLUTABRÉFA TIL VIÐSKIPTA...

Detaljer

Mat á áhættu vegna innflutnings á nautasæði frá Geno Global Ltd í Noregi

Mat á áhættu vegna innflutnings á nautasæði frá Geno Global Ltd í Noregi Áhættumat Mat á áhættu vegna innflutnings á nautasæði frá Geno Global Ltd í Noregi Mars 2014 0 EFNISYFIRLIT Inngangur...4 I. Forsendur...4 II. Hættugreining...5 III. Áhættumat...8 1. Berklar (Tuberculosis

Detaljer

Øvingsoppgaver i norrønt

Øvingsoppgaver i norrønt Robert K. Paulsen Øvingsoppgaver i norrønt Del 2 (Leksjon 4) for Fjernord- studentene våren 2014 NOSP103- F Institutt for lingvistiske, litterære og estetiske studier Universitetet i Bergen Versjonshistorie

Detaljer

Frumvarp til laga. Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Frumvarp til laga. Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 146. löggjafarþing 2016 2017. Þingskjal 379 272. mál. Stjórnarfrumvarp. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun

Detaljer

Dómstigi við mat á lifandi sauðfé

Dómstigi við mat á lifandi sauðfé Dómstigi við mat á lifandi sauðfé Við dóma á sauðfé skal styðjast við skala þann sem lýst verður hér á eftir ásamt því að upplýsingar um þunga grips og mælingar á bakvöðva, fituþykkt á baki, lögun vöðvans

Detaljer

Þorskeldisráðstefna í Bergen 9. Kristján Ingimarsson HB Grandi - fiskeldi

Þorskeldisráðstefna í Bergen 9. Kristján Ingimarsson HB Grandi - fiskeldi Þorskeldisráðstefna í Bergen 9. og 10. febrúar 2011. Kristján Ingimarsson HB Grandi - fiskeldi Dagskrá ráðstefnunnar Miðvikudagur 9. febrúar: Heilbrigði og afföll í matfiskeldi. Seiðagæði. Eldisþorskur:

Detaljer

Heimildin til nafnleyndar vitna í sakamálum BA ritgerð í lögfræði

Heimildin til nafnleyndar vitna í sakamálum BA ritgerð í lögfræði Heimildin til nafnleyndar vitna í sakamálum BA ritgerð í lögfræði Berglind Hermannsdóttir Lagadeild Félagsvísindasvið Friðrik Ársælsson Október 2013 Berglind Hermannsdóttir Heimildin til nafnleyndar vitna

Detaljer

Frumvarp til laga. (Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi )

Frumvarp til laga. (Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi ) Þingskjal 1107 679. mál. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni). (Lagt fyrir Alþingi

Detaljer

SKÝRSLA NEFNDAR VEGNA ENDURSKOÐUNAR IÐNAÐARLAGA

SKÝRSLA NEFNDAR VEGNA ENDURSKOÐUNAR IÐNAÐARLAGA SKÝRSLA NEFNDAR VEGNA ENDURSKOÐUNAR IÐNAÐARLAGA Febrúar 2012 ISBN: 978-9979-871-58-3 EFNISYFIRLIT SAMANTEKT... 5 NIÐURSTÖÐUR OG TILLÖGUR NEFNDARINNAR... 8 1. INNGANGUR... 11 1.1. Skipan nefndarinnar...

Detaljer

Aðför vegna umgengistálmana

Aðför vegna umgengistálmana Aðför vegna umgengistálmana Hrefna Friðriksdóttir Lagadeild Ritstjóri Hrefna Friðriksdóttir Rannsóknir í félagsvísindum XIII. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2012 Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla

Detaljer

SKALI STÆRÐFRÆÐI FYRIR UNGLINGASTIG VERKEFNAHEFTI. Námsgagnastofnun 8667

SKALI STÆRÐFRÆÐI FYRIR UNGLINGASTIG VERKEFNAHEFTI. Námsgagnastofnun 8667 1B SKALI VERKEFNAHEFTI STÆRÐFRÆÐI FYRIR UNGLINGASTIG Námsgagnastofnun 8667 Efnisyfirlit Verkefnablöð í Skala 1B Kafli 4 1.4.1 Skífurit 1.4.2 Hve gamlir eru strákarnir? 1.4.3 Hvaða kast var lengst? 1.4.4

Detaljer

Alþingi Austurstræti Reykjavík B.t. allsherjar og menntamálanefndar Reykjavík, 5. júní 2018

Alþingi Austurstræti Reykjavík B.t. allsherjar og menntamálanefndar Reykjavík, 5. júní 2018 Alþingi Austurstræti 8-10 150 Reykjavík B.t. allsherjar og menntamálanefndar nefndasvid@althingi.is Reykjavík, 5. júní 2018 Efni: Umsögn um frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga,

Detaljer

Laxa- og fiskilús: hver er staðan í baráttunni?

Laxa- og fiskilús: hver er staðan í baráttunni? Laxa- og fiskilús: hver er staðan í baráttunni? Albert K. Imsland, Akvaplan-niva, Strandbúnaðarþing 2018, Grand Hótel Reykjavík, 19.-20. mars Yfirlit erindis Lífsferill laxalúsar Hitastig og laxalús Laxalús

Detaljer

EES-viðbætir. ÍSLENSK útgáfa. við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Nr. 27 ISSN árgangur EB-STOFNANIR

EES-viðbætir. ÍSLENSK útgáfa. við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Nr. 27 ISSN árgangur EB-STOFNANIR ÍSLENSK útgáfa EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins I EES-STOFNANIR 1. Sameiginlega EES-nefndin II EFTA-STOFNANIR 1. Fastanefnd EFTA-ríkjanna 2. Eftirlitsstofnun EFTA ISSN 1022-9337 Nr. 27

Detaljer

Rannsókn á framkvæmd og stjórnun kirkjutónlistar á grunni Tónlistarstefnu Þjóðkirkjunnar: auðlindir, virðisauki, virðiskeðja og SVÓT-greining.

Rannsókn á framkvæmd og stjórnun kirkjutónlistar á grunni Tónlistarstefnu Þjóðkirkjunnar: auðlindir, virðisauki, virðiskeðja og SVÓT-greining. FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Rannsókn á framkvæmd og stjórnun kirkjutónlistar á grunni Tónlistarstefnu Þjóðkirkjunnar: auðlindir, virðisauki, virðiskeðja og SVÓT-greining. Ritgerð til MA gráðu Nafn nemanda: Kári

Detaljer

Helstu nýmæli laga nr. 150/2007

Helstu nýmæli laga nr. 150/2007 Svanhildur Anna Magnúsdóttir Helstu nýmæli laga nr. 150/2007 -BA ritgerð í lögfræði - Umsjónarkennari: Heiðar Ásberg Atlason Lagadeild Háskóla Íslands Júní 2009 EFNISYFIRLIT 1. Inngangur... 3 2. Forsaga

Detaljer

Er fjárkláðinn úr sögunni?

Er fjárkláðinn úr sögunni? 8 Skógrækt þyrfti að þrefalda að mati Arnórs Snorrasonar 12 Er fjárkláðinn úr sögunni? 16 Viðtal við Ólaf M. Magnússon í Mjólku 10. tölublað 2007 Þriðjudagur 29. maí Blað nr. 261 Upplag 16.300 Alhvítt

Detaljer

sþ Tillaga til þingsályktunar [132. mál]

sþ Tillaga til þingsályktunar [132. mál] sþ. 137. Tillaga til þingsályktunar [132. mál] um verndun ósonlagsins. Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Hjörleifur Guttormsson, Steingrímur J. Sigfússon. Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni: 1. að gera

Detaljer

Mat á áhættu vegna innflutnings á fósturvísum frá Geno Global Ltd í Noregi

Mat á áhættu vegna innflutnings á fósturvísum frá Geno Global Ltd í Noregi Áhættumat Mat á áhættu vegna innflutnings á fósturvísum frá Geno Global Ltd í Noregi Mars 2014 0 EFNISYFIRLIT Inngangur...3 I. Forsendur...3 II. Hættugreining...4 1. Berklar (Mycobacterium bovis)... 4

Detaljer

Nýtum tækifærin á sviði fjarskipta og ferðamála til bættra lífskjara í landinu

Nýtum tækifærin á sviði fjarskipta og ferðamála til bættra lífskjara í landinu Nýtum tækifærin á sviði fjarskipta og ferðamála til bættra lífskjara í landinu Samgönguráðuneyti helstu málaflokkar og stofnanir: Málstofa á Bifröst, 6. nóv. 2002 Ferðamál Ferðamálaráð Íslands Ferðamálasjóður

Detaljer

Leiðbeiningar fyrir lögmenn um hvernig uppfylla má kröfur nýrra laga um persónuvernd

Leiðbeiningar fyrir lögmenn um hvernig uppfylla má kröfur nýrra laga um persónuvernd Lögmannafélag Íslands Leiðbeiningar fyrir lögmenn um hvernig uppfylla má kröfur nýrra laga um persónuvernd Hörður Helgi Helgason, lögmaður Samið að fyrirmynd norska lögmannafélagsins, Advokatforeningens

Detaljer

Vatnsorka í Noregi. Aðdragandi núverandi skattakerfis. Markmið með breytingunum

Vatnsorka í Noregi. Aðdragandi núverandi skattakerfis. Markmið með breytingunum Skattlagning orkufyrirtækja í Noregi Vatnsorka í Noregi Norðmenn hófu að beisla vatnsorku sína þegar á seinustu öld, en stærstu skrefin voru þó ekki stigin fyrr eftir seinni heimsstyrjöld. Þannig var uppsett

Detaljer

Álfasala SÁÁ maí

Álfasala SÁÁ maí 1. TÖLUBLAÐ - 14. ÁRGANGUR - MAÍ 2015 Álfasala SÁÁ 6.-10. maí - Þúsund sölumenn um land allt - bls. 3 Grímur Atlason: - drakk og ég fann ró - bls.4 Ásgerður Th. Björnsdóttir: - Söfnunarfé greiðir 20% af

Detaljer

7.4 Skotvopn og sprengiefni Önnur tilvik gr. hegningarlaganna Hugtakið saknæmi Saknæmisskilyrði...

7.4 Skotvopn og sprengiefni Önnur tilvik gr. hegningarlaganna Hugtakið saknæmi Saknæmisskilyrði... EFNISYFIRLIT Aðfararorð... 3 1 Inngangur... 4 1.1 Um efni ritgerðarinnar og efnisskipan... 4 1.2 Sögulegt yfirlit... 6 2 Flokkun afbrota... 7 2.1 Tjónsbrot... 8 2.2 Samhverf brot... 9 2.3 Hættubrot...

Detaljer

Að öðru leyti er vísað til umsagnar Alþýðusambandsins um frumvarp til laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, mál 518.

Að öðru leyti er vísað til umsagnar Alþýðusambandsins um frumvarp til laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, mál 518. ALÞÝÐUSAMBAND ÍSLANDS Alþingi komudagur Í9.Í.Q.003 Nefndasvið Alþingis Austurstræti 8-10 Reykjavík, 18. febrúar 2003 Efni: Umsögn um frumvarp til laga um neytendakaup, 556. mál, EESreglur. Alþýðusamband

Detaljer

Hægribeygjur af þjóðvegum Rannsóknarverkefni. Mat á umferðaröryggi mismunandi útfærslna

Hægribeygjur af þjóðvegum Rannsóknarverkefni. Mat á umferðaröryggi mismunandi útfærslna Hægribeygjur af þjóðvegum Rannsóknarverkefni Mat á umferðaröryggi mismunandi útfærslna Júní 2008 Vegagerðin Efnisyfirlit 1 Inngangur... 3 2 Reynsla annarra landa... 4 2.1 Samantekt... 4 2.2 Noregur...

Detaljer

Alþingi Austurstræti Reykjavík B.t. allsherjar og menntamálanefndar Reykjavík, 5. júní 2018

Alþingi Austurstræti Reykjavík B.t. allsherjar og menntamálanefndar Reykjavík, 5. júní 2018 Q E SAMTOKFJARMALAFYRIRTÆKJA lcelandic Financial Serviccs Association ms a m tö k fy rirtæ k ja SA Alþingi Austurstræti 8-10 150 Reykjavík B.t. allsherjar og menntamálanefndar nefndasvid@althingi.is Reykjavík,

Detaljer

Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa!

Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa! Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa! Vinnumarkaður hjúkrunarfræðinga Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Gunnar Helgason, sviðsstjóri kjara og réttindasviðs Helga Ólafs, ritstjóri Febrúar 2017 Útdráttur Síðustu

Detaljer

1. Inngangur. 2. Önnur móðurmál en íslenska

1. Inngangur. 2. Önnur móðurmál en íslenska 1 1. Inngangur Ýmsir geta ekki nýtt sér hefðbundna kennslu í íslensku í grunnskóla. Hluti þeirra hefur gengið undir nafninu nýbúar. Í Reglugerð um íslenskukennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku

Detaljer

Eksamen FSP6074 Islandsk II PSP5732 Islandsk nivå II. Nynorsk/Bokmål

Eksamen FSP6074 Islandsk II PSP5732 Islandsk nivå II. Nynorsk/Bokmål Eksamen 22.05.2017 FSP6074 Islandsk II PSP5732 Islandsk nivå II Nynorsk/Bokmål Nynorsk Eksamensinformasjon Eksamenstid Hjelpemiddel Eksamen varer i 5 timar. Alle hjelpemiddel er tillatne, bortsett frå

Detaljer

Um upplýsingaskyldu seljanda í fasteignakaupum og fleiri reglur laga nr. 40/2002 um fasteignakaup

Um upplýsingaskyldu seljanda í fasteignakaupum og fleiri reglur laga nr. 40/2002 um fasteignakaup Grímur Hergeirsson Um upplýsingaskyldu seljanda í fasteignakaupum og fleiri reglur laga nr. 40/2002 um fasteignakaup - Meistararitgerð í lögfræði - Umsjónarkennari: Viðar Már Matthíasson Lagadeild Háskóla

Detaljer

Fréttabréf -átak í sparnaði- Kæra samstarfsfólk gjörgæsludeildar og vöknunar

Fréttabréf -átak í sparnaði- Kæra samstarfsfólk gjörgæsludeildar og vöknunar Fréttabréf Fréttabréf -átak í sparnaði- Kæra samstarfsfólk gjörgæsludeildar og vöknunar Eins og öllum er kunnugt fara tímar sparnaðar og aðhalds í hönd. Hagræðingarkrafan á heilbrigðisráðuneytið mun vera

Detaljer

Auglýsir eftir bændum til að veiða ál

Auglýsir eftir bændum til að veiða ál Næsta blað kemur út 26. október Auglýsingasíminn er 563 0300 Netfang augl@bondi.is Vaxandi áhugi fyrir veiðiminjasafni 2 Þráðlaust breiðband í Borgarfirði 4 Gulrætur 18 Rafrænt bókhald 10 Blað nr. 204

Detaljer

Drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum.

Drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum. Drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum. 1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna: a. Á brott

Detaljer

Formannspistill... 4 Salóme A. Þórisdóttir. Starfskenning Starfskenning Þroskaþjálfa Bryndís Guðmundsdóttir, þroskaþjálfi. Ylfa...

Formannspistill... 4 Salóme A. Þórisdóttir. Starfskenning Starfskenning Þroskaþjálfa Bryndís Guðmundsdóttir, þroskaþjálfi. Ylfa... Fagbla Þroskaþjálfafélags Íslands, 1. tbl. 11. árg. 2010 Frá út gáfu ráði Nokkurt hlé hefur orðið á útgáfu Þroskaþjálfans. Síðasta blað kom út árið 2007 og þá eingöngu í vefútgáfu. Almennur vilji félagsmanna

Detaljer

Loftslagsmálin voru mál málanna á fundi norrænna bænda. 14. tölublað 2009 Fimmtudagur 27. ágúst Blað nr. 309 Upplag

Loftslagsmálin voru mál málanna á fundi norrænna bænda. 14. tölublað 2009 Fimmtudagur 27. ágúst Blað nr. 309 Upplag 4 Sauðfjárbændur bíða eftir kjötverði í sláturtíðinni 6-7 12-13 Loftslagsmálin voru mál málanna á fundi norrænna bænda Hamingjan er þar sem maður er, segir Jón Eiríksson 14. tölublað 2009 Fimmtudagur 27.

Detaljer

EES-viðbætir. ÍSLENSK útgáfa. við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Nr. 34 ISSN árgangur ESB-STOFNANIR

EES-viðbætir. ÍSLENSK útgáfa. við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Nr. 34 ISSN árgangur ESB-STOFNANIR ÍSLENSK útgáfa EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins I EES-STOFNANIR 1. Sameiginlega EES-nefndin II EFTA-STOFNANIR 1. Fastanefnd EFTA-ríkjanna 2. Eftirlitsstofnun EFTA ISSN 1022-9337 Nr. 34

Detaljer

Sjáðu hvað ég fann. Þróunarverkefni í leikskólanum Laugasól. Kolbrun Vigfúsdóttir

Sjáðu hvað ég fann. Þróunarverkefni í leikskólanum Laugasól. Kolbrun Vigfúsdóttir Sjáðu hvað ég fann Þróunarverkefni í leikskólanum Laugasól Kolbrun Vigfúsdóttir 2014 Sjáðu hvað ég fann: Þróun málörvunar og íslenskukennslu í útinámi Reykjavík í júlí 2014 Kolbrún Vigfúsdóttir 2 Sjáðu

Detaljer

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi ) I. KAFLI Breyting á lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi ) I. KAFLI Breyting á lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Í vinnslu 15. febrúar 2016 Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og nr. 74/2012 um veiðigjald (öflun sjávargróðurs

Detaljer

TILKOMA, INNTAK OG FRAMKVÆMD TILKYNNINGARFRESTS, SKV. 1. MGR. 51. OG 1. MGR GR. VÁTRYGGINGARSAMNINGALAGA, NR. 30/2004.

TILKOMA, INNTAK OG FRAMKVÆMD TILKYNNINGARFRESTS, SKV. 1. MGR. 51. OG 1. MGR GR. VÁTRYGGINGARSAMNINGALAGA, NR. 30/2004. TILKOMA, INNTAK OG FRAMKVÆMD TILKYNNINGARFRESTS, SKV. 1. MGR. 51. OG 1. MGR. 124. GR. VÁTRYGGINGARSAMNINGALAGA, NR. 30/2004. SKÚLI SVEINSSON 14. maí 2012 ML í lögfræði Höfundur: Skúli Sveinsson Kennitala:

Detaljer

3.2 Lausnir af römmum sýrum og bösum

3.2 Lausnir af römmum sýrum og bösum 3. kafli, Efnafræði II (Jóhann Sigurjónon) Efnahvörf ýru og baa við vatn og innbyrði. (Athuga: K = K a ; S = HB ; B = B ; K v = K w ) Upprifjun (8. kafli bók I, Jóhann Sigurjónon) Skilgreiningar: Brønted:

Detaljer

Ný setningafræðileg breyting? Um hina svokölluðu nýju þolmynd í íslensku

Ný setningafræðileg breyting? Um hina svokölluðu nýju þolmynd í íslensku SIGRÍÐUR SIGURJÓNSDÓTTIR OG JOAN MALING Ný setningafræðileg breyting? Um hina svokölluðu nýju þolmynd í íslensku 1. Inngangur Á þeim 1100 árum sem liðin eru frá landnámi Íslands hefur íslensk tunga tekið

Detaljer

ÚRRÆÐI 55. GR. FJÖLEIGNARHÚSALAGA VEGNA BROTA Á GRENNDARHAGSMUNUM

ÚRRÆÐI 55. GR. FJÖLEIGNARHÚSALAGA VEGNA BROTA Á GRENNDARHAGSMUNUM ÚRRÆÐI 55. GR. FJÖLEIGNARHÚSALAGA VEGNA BROTA Á GRENNDARHAGSMUNUM Haukur Hinriksson 2013 BA í lögfræði Höfundur/höfundar: Haukur Hinriksson Kennitala: 060690-3169 Leiðbeinandi: Kristín Haraldsdóttir Lagadeild

Detaljer

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 8. mars 2013, á hendur:

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 8. mars 2013, á hendur: -Árið 2013, föstudaginn 7. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af héraðsdómurunum Guðjóni St. Marteinssyni, sem dómsformanni, Barböru Björnsdóttur og Halldóri

Detaljer

STOPPISTÖÐVAR Á ÞJÓÐVEGUM Í DREIFBÝLI - SAMANBURÐUR MILLI LANDA

STOPPISTÖÐVAR Á ÞJÓÐVEGUM Í DREIFBÝLI - SAMANBURÐUR MILLI LANDA STOPPISTÖÐVAR Á ÞJÓÐVEGUM Í DREIFBÝLI - SAMANBURÐUR MILLI LANDA RANNSÓKNARVERKEFNI UNNIÐ MEÐ STYRK FRÁ VEGAGERÐINNI DESEMBER 2017 MANNVIT +354 422 3000 www.mannvit.is mannvit@mannvit.is Efnisyfirlit 1.

Detaljer

Greiðsluaðlögun einstaklinga

Greiðsluaðlögun einstaklinga Greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lögum nr. 101/2010 -Meistararitgerð til Mag. jur. prófs í lögfræði - Rannveig Júníusdóttir Lagadeild Félagsvísindasvið Umsjónarkennari: Ása Ólafsdóttir, lektor september

Detaljer

Greinargerð um launatölfræði í Noregi og á Íslandi

Greinargerð um launatölfræði í Noregi og á Íslandi Hallgrímur Snorrason 5.4.2017 Greinargerð um launatölfræði í Noregi og á Íslandi Samantekt Í þessari greinargerð er fjallað um reglubundnar tölfræðiathuganir á launum og atvinnu í Noregi og á Íslandi,

Detaljer

Hámarkshraði á tveggja akreina

Hámarkshraði á tveggja akreina Hámarkshraði á tveggja akreina þjóðvegum Athugun á norskri aðferð við ákvörðun hámarkshraða Nóvember 2004 Einar M. Magnússon Þórólfur Nielsen Haraldur Sigþórsson Unnið af: Einari Má Magnússyni og Þórólfi

Detaljer

Skilningur háskólanema á námslánum Rebekka Rut Gunnarsdóttir. Solveig María Ívarsdóttir. B.Sc. í viðskiptafræði

Skilningur háskólanema á námslánum Rebekka Rut Gunnarsdóttir. Solveig María Ívarsdóttir. B.Sc. í viðskiptafræði Skilningur háskólanema á námslánum Rebekka Rut Gunnarsdóttir Solveig María Ívarsdóttir B.Sc. í viðskiptafræði Vor 2013 Rebekka Rut Gunnarsdóttir Leiðbeinandi: Kt. 041291-2309 Breki Karlsson Fjármál Solveig

Detaljer

KÖNNUNARSKURÐIR Í SVONEFNDA ÞORLÁKSBÚÐ Í SKÁLHOLTI

KÖNNUNARSKURÐIR Í SVONEFNDA ÞORLÁKSBÚÐ Í SKÁLHOLTI KÖNNUNARSKURÐIR Í SVONEFNDA ÞORLÁKSBÚÐ Í SKÁLHOLTI Mjöll Snæsdóttir FS435-09041 2009 Fornleifastofnun Íslands 2009 Bárugötu 3 101 Reykjavík Sími: 551 1033 Fax: 551 1047 Netfang: fsi@instarch.is Heimasíða:

Detaljer

2.febrúar 2015 kl. 08:30-11:00

2.febrúar 2015 kl. 08:30-11:00 Sveinsprófsnefnd sterkstraums Rafmagnsfræði, stýrikerfi og búnaður 2.febrúar 2015 kl. 08:30-11:00 Nafn: Kennitala: Heimilisfang:_ Hjálpargögn: Skriffæri, reglustika, og reiknivél. Nota má bókina Formúlur

Detaljer

FRIÐHELGI EINKALÍFS NÓVEMBER 2003

FRIÐHELGI EINKALÍFS NÓVEMBER 2003 FRIÐHELGI EINKALÍFS NÓVEMBER 2003 Hver er réttur barns til friðhelgi einkalífs? Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálanum, er barn skilgreint, sem einstaklingur, yngri

Detaljer

Landslagsgreining - staðareinkenniverkfæri til byggða- og atvinnuþróunar

Landslagsgreining - staðareinkenniverkfæri til byggða- og atvinnuþróunar Landslagsgreining - staðareinkenniverkfæri til byggða- og atvinnuþróunar Auður Sveinsdóttir 2014 ,,...og við verðum að hugsa um steinana. Við megum ekki alltaf láta þá liggja í skugganum okkar, við eigum

Detaljer

Hvað er að vera vinur? Um lífsleikni og dygðir í leikskólastarfi

Hvað er að vera vinur? Um lífsleikni og dygðir í leikskólastarfi Lokaverkefni til B.Ed. - prófs Hvað er að vera vinur? Um lífsleikni og dygðir í leikskólastarfi Arndís Th. Friðriksdóttir Kennaraháskóli Íslands Leikskólabraut Maí 2007 Ágrip Lífsleikni og dygðir í leikskólastarfi

Detaljer

Gæsluvarðhald að ósekju

Gæsluvarðhald að ósekju LÖGFRÆÐISVIÐ Gæsluvarðhald að ósekju Bótaréttur manna vegna setu í gæsluvarðhaldi að ósekju sbr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ritgerð til BS gráðu Nafn nemanda: Þorkell Hróar Björnsson

Detaljer